Friday, November 20, 2009

Annar þáttur

Nú þegar Nóvember fer að líða undir lok og jólaauglýsingar prýða götur okkar ástsælu Reykjavíkurborgar og standa sem áminning um að lok ársins nálgast, þá fara menn að taka saman plötur ársins og huga að topp 10 listunum. Ég er aldrei alveg með á hreinu hvaða plötur komu út það árið eða árið á undan og þegar það líður á haustið fer ég yfir ártöl þeirra nýlegu útgáfa sem heilluðu mig hvað mest. 2008 var frekar gott plötuár. The Chemistry of Common Life með Kanadísku hljómsveitinni FUCKED UP var klárlega besta platan í fyrra og eiginlega ein merkilegasta pönkplata síðustu ára. Einnig kom út hin frábæra Magazines smáskífa með WHITE LUNG, sem eru líka frá Kanada. Popppönk meistararnir DILLINGER FOUR gáfu út plötuna Civil War, WORLD BURNS TO DEATH gáfu út The Graveyards of Utopia plötuna og hinn danski P.J. BONNEMAN úr hljómveitum eins og NO HOPE FOR THE KIDS og GORILLA ANGREB gaf út ótrúlega góða sólóplötu. Ég hafði ekki góða tilfinningu fyrir árinu þegar ég byrjaði samantektina en það er allt að breytast. Margar plötur sem mér fannst vera árinu eldri, sem gera þetta ár ansi gott í plötubransanum. Ég ætla ekki að fara yfir allar þær plötu sem heilluðu mig en mig langar að ræða um nokkrar af uppáhalds plötunum mínum í ár.

Það er, fyrir mér engin samkeppni um bestu plötu ársins. Sjálftitluð (?) plata hljómsveitarinnar CULT RITUAL er The Chemistry of Common Life ársins 2009. Það er langt síðan að ég hef heyrt jafn brjálaða plötu. Hún er hnefi í andlitið. Hún er þung og spennuþrungin eins og My War með BLACK FLAG en að sama skapi sleppir hún reiðinni lausri og maður finnur fyrir hatrinu og vonleysinu hellast yfir mann. Hávært þungapönk* með tonn af skerandi feedbacki, noisetónlistar verkum, frumlegum lagasmíðum og keyrslu sem líkist eiginlega engu sem ég hef heyrt áður. Þvílíkt brjálæði. Viðtalið við þá í Maximum Rock 'N' Roll er líka eitt það besta sem ég hef lesið lengi. Þeir tala um hvað það séu mikil vonbrigði að koma í pönksenu sem á að þykja annar valkostur við hið venjulega samfélag en svo eru allir bara að drekka bjór og tala um hver svaf hjá hverjum. Loksins straight edge band sem þorir að rífa kjaft!

Úr CULT RITUAL krúinu kemur hljómsveitin MERCHANDISE. Þeir gáfu út sjálftitlaða þröngskífu á útgáfu CULT RITUAL manna, Cult Maternal. Þetta er annað stórvirki ársins 2009 og ég er búinn að hlusta mikið á þessa plötu. MERCHANDISE er oftast lýst sem síðpönki (post-punk) og í Maximum Rock 'N' Roll viðtalinu við CULT RITUAL var þeim lýst sem straight edge BIRTHDAY PARTY. Ég heyri vel síðpönk áhrifin en mér finnst Washington D.C. emo tíunda áratugarins ekki síður vera öflugt karaktereinkenni í tónlist MERCHANDISE. Þá sérstaklega JAWBOX. Platan er grípandi og bæði söngmelódíurnar og hljóðfæralínurnar ná heljartaki á athygli minni í hvert sinn sem ég set þetta meistarastykki á. Góðmennin hjá Cult Maternal bjóða upp á ókeypis niðurhal á þessari plötu ásamt fleirum á heimasíðu sinni á http://cultmaternal.blogspot.com/.


Cominciare a Vivere með ítölsku hljómsveitinni SMART COPS er ótrúlega vel heppnuð þröngskífa. Platan var gefin út af Sorry State Records í Bandaríkjunum en afar spennandi og tiltölulega nýrri danskri útgáfu, Adult Crash í Evrópu en þeir gáfu líka út hina stórgóðu NIGHT FEVER 12", New Blood og stefna á að gefa út U.X. VILEHEADS frá Umeå sem ég er búinn að vera spenntur fyrir lengi. Einhverjir íslenskir pönkarar kannast kannski við söngvarann, Torbjörn sem var í sænsk-íslensku pönksveitinni, THE MANBOYS (sem síðar urðu alsænskt band og breyttu nafninu í ATTITYD PROBLEM). Nóg um það, snúum okkur að SMART COPS. Á þessari plötu blanda ítalirnir garage-pönki og þungapönki saman í einbeitta en sinnulausa pönksprengju. Mjög hip en það er allt í lagi því þetta er líka mjög gott dót. Eitraðir hraðir kaflar yfir í grípandi pönk rokk kafla. Þetta er svolítið eins og ef THE BANANAS væru þungapönk band. Þeir enda plötuna svo á lagi þar sem þeir sameina brot úr hinum og þessum pönkslögurum sem fjalla um löggur. Lagið inniheldur m.a. The Dicks Hate the Police eftir THE DICKS, Police Bastard eftir DOOM, Police Story eftir BLACK FLAG, Police Truck eftir DEAD KENNEDYS o.fl.
Jæja þetta er orðið ágætt í bili. Fleiri plötur ársins næst. Fylgist með.




*Þungapönk er mín þýðing á hardcore eða hardcore punk. Harðkjarni finnst mér bæði full mikið „he-he“ og svo hafa íslenskir fjölmiðlar eiginlega drepið niður alla merkingu þessa orðs. Nu-metal bönd á borð við VÍGSPÁ og SPITSIGN hafa verið bendluð við harðkjarna alveg eins og hardcore bönd eins og FIGHTING SHIT og I ADAPT og á þetta orð, harðkjarni, því frekar við senu sem er umdeilanlega ekki til lengur. Allaveganna er hún í talsvert annari mynd í dag en þá.

1 comment:

  1. Góðar færslur á þessu bloggi!
    Hef bara heyrt CR plötuna af þeim sem þú nenfir þarna. Þarf að græja það.

    Annars hef ég verið að berjast gegn þessu andskotans fjölmiðlaorðskrípi sem er harðkjarni. Þetta er ljóta helvítis helvítið og hef ég rökrætt það við hin og þessi tækifæri og hinum ýmsustu vettföngum árum saman. En allt kemur til alnæmis. Nú. Ég tek sama pól í hæðina og þú og hef því litlu við að bæta. Nema, já það er til Harðkjarni. En það er líka HEIMASÍÐA.

    ReplyDelete