Friday, May 7, 2010

Í bíó

Ég var eins og einkaspæjari í film noir kvikmynd. Eða öllu heldur var ég eins og klunnalegur karakter í Woody Allen mynd sem hefur séð of margar film noir myndir. Ég heyrði raddirnar og um leið fór hettan upp. Ég sat niðurlútur með hendur í vösum í von um að ef þau væru bara nógu upptekin, tækju þau ekki eftir mér. Ef ég passaði mig að horfa ekki. Allir þekkja augnaráðið. Allir finna það á hnakkanum á sér. Ég ætlaði ekki að láta það koma upp um mig. Ég var orðinn óþreyjufullur. Ég ætlaði mér ekki að missa af upphafinu á myndinni en þau höfðu staldrað við beint fyrir framan innganginn. Ég þurfti að sætta mig við biðina. Það var ennþá tími til stefnu og það var skárra að koma á síðustu stundu heldur en að lenda í vandræðalegu spjalli um ekki neitt. Ég yrði spurður út í skólann. Mín skólaganga kemur engum við nema mér. Andskotans vesen.

Loksins gengu þau af stað. Ég beið í nokkrar sekúndur og byrjaði þá að ganga rösklega í átt að salnum. Ég passaði mig að halda mig örugglega úr sjónlínu þeirra, því allar hettur heimsins geta ekki falið mörgæsalegt göngulag mitt. Ég vissi að ef ég kæmist að stiganum þá væri ég hólpinn. Þau myndu aldrei kalla í mig á ferð inn. Við þekkjumst ekki það vel. Ég leit útundan mér og sá þau hvergi. Þetta tókst. Ég var kominn inn í salinn án þess meira að segja að þurfa að heilsa vandræðalega með flóttalegu augnaráði. Án þess að upplifa hikið sem óvissan um hvort viðeigandi sé að tala saman núna, veldur. Svo var myndin líka þrusufín.

No comments:

Post a Comment