Tuesday, April 13, 2010

Ekki gleyma að slamma

Önnur hústaka átti sér stað um daginn á Vesturgötu 51. Ég veit ekki hvernig gekk en ég rak augun í skrif enn eins hægri mannsins um mikilvægi einkaréttar. Nú geri ég mér grein fyrir að þær hústökur sem gerðar hafa verið undanfarið, séu ekki gerðar í þeim tilgangi að verða við bón miðstéttarinnar um að hreinsa niðurnýdd hús miðbæjarins og gera hverfið þeirra fallegra aftur. Hústökur eru held ég sjaldan framkvæmdar í því skyni að auka verðgildi fasteigna. Hins vegar er þetta eitthvað sem mörgum þykir mikilvægt, því finnst mér undarlegt þegar mönnum sem kaupa vernduð hús til þess að láta þau grotna niður og að lokum rífa þau, sé sýnd slík samúð. Þegar þessir menn fara í kringum lögin brjóta þeir kannski ekki lögin sjálf en brjóta engu að síður á tilgangi þeirra. Eyðileggja hluta af sögu Reykjavíkur til þess að verða sér út um gróða. Er lífið og samfélagið leikur?

Í endalausum rifrildum hægri og vinstri manna hafa hægri menn gjarnan ásakað vinstri menn um barnalega einfeldni. Á sama tíma væla menn um "ölmusur" sem gera fátækum lífið auðveldara. Þeim finnst það ósanngjarnt. Sumir tapa, aðrir vinna. Ósanngjarnt eða ekki, þá er verið að tala um líf fólks. Það eina sem það fær. Hættiði að væla, takk.

Það er komin út ný plata með hljómsveitinni MASSHYSTERI. Platan ber nafn hljómsveitarinnar og kom út á Ny Våg. Á nyvag.com er að finna lagið Dom Kan Inte Höra Musiken sem er frekar geðveikt. Aðeins þægilegra kannski en lögin á Vår Del Av Stan en frekar kúl samt sem áður. Ég fer til Danmerkur í lok apríl og er að vonast til að geta nælt mér í eintak í Repo Man ásamt eintaki af nýju REGULATIONS sem kom einmitt líka út á Ny Våg. Annars er heitasta útgáfa 2010 nýja HOMOSTUPIDS þröngskífan, Night Deacon. Hún er skrýtin og brjáluð. Þeir minna mig á einhvern undarlegan hátt á HERRA MÖLLER HERRA MÖLLER. Lélegur húmor en aldrei Fræbbblað. Lo-fi góðgæti. Kúl lagasmíðar.

Vonbrigði ársins eru klárlega þau að DE HØJE HÆLE platan hefur frestast endalaust og verður ekki komin út fyrr en í júní. Hins vegar kemur LOKUM 12" út núna 17. apríl á Hjernespind og ég er frekar spenntur fyrir henni. Mér skilst að þetta séu lög sem voru tekin upp á sama tíma og þeirra efni fyrir deiliskífuna með GORILLA ANGREB.

Íslendingar munu líklegast allir hoppa hæð sína af kæti þegar þeir heyra að Paradísarborgarplötur eru að vinna í að gefa út slatta af útgáfum núna í vor og í sumar. Flest allt á kassettu og flest allt leiðinlegt. Við stefnum á að verða leiðinlegasta útgáfa Íslandssögunnar. Engin breakdown, ekkert slamm, ekkert "pro", enginn í fíling. Bara góð lög og lélegt sánd. THE DEATHMETAL SUPERSQUAD er með tvær útgáfur væntanlegar. Platan Slowly We Rock sem kemur út á vínyl í sumar sem mun innihalda nokkur ný lög og nokkur gömul en allt nýjar upptökur. Svo í vor kemur út kassetta sem mun heita Two Guys, a Guy and a Pizza Place. Hún inniheldur upptökur frá 2007 eða 2008 eða eitthvað sem við tókum upp í æfingarhúsnæði. Öll lögin voru samin á staðnum eða ekki samin yfir höfuð. Drone-skotið indie rokk.

Ég er farinn.
SLAMM!

No comments:

Post a Comment