Friday, November 20, 2009

Fyrsti þáttur

Nýtt upphaf, nýjar áherslur og nýtt tungumál. Til þess að leggja grunninn að því sem koma skal hér á þessu bloggi langar mig að hefja leikinn á því að ræða listrænt gildi tölvuleikja. Ég hef tekið eftir undanfarið, aukinni umræðu um hvort tölvuleikir séu list eða ekki og ég verð að viðurkenna að mér finnst þessi umræða hálf furðuleg. Ég á erfitt með að skilja af hverju þessi umræða á sér stað því að ég hefði haldið að í samfélagi, jafn gegnsýrt af margmiðlun, þá þætti sjálfsagt að tölvuleikir, eins og kvikmyndir eða tónlist teldist til listgreina. Umræðan virðist skiptast í tvennt og ég ætla að hrekja grundvöll þeirra beggja.

Fyrri umræðan sem ég ætla að taka fyrir er byggð á því hvort tölvuleikir séu list útfrá hvort grafík, tónlist eða söguþráður séu jafn merkileg og málverk, klassísk tónverk eða bókmenntir. Í fullri hreinskilni, þá finnst mér þessi umræða fáránleg. Að meta listrænt gildi einhvers forms útfrá því hversu mikla aðra list það inniheldur er fáránlegt. Það er svona eins og að segja að bók sé ekki list því Mozart hljómar ekki í hvert skipti sem þú opnar hana. Listrænt gildi tölvuleikja ætti því að meta útfrá forsendum þeirra sjálfra, ekki forsendum annarra listgreina.

Síðari umræðan er ekki jafn fáránleg en þó þykir mér hún undarleg. Spurningin sem einkennir þá umræðu hefur einnig verið spurð innan tónlistar og kvikmynda: hvort er það skemmtiefni eða list? Á móti spyr ég: af hverju getur það ekki verið bæði? Eru verk Chopin list en ekki The Ramones? Er Citizen Kane list en ekki Re-Animator? List fyrir mér er hugarástand eða ásetningur en ekki einhversskonar stigbreytilegur gæðastimpill einhverrar hrokafullrar listaelítu

Nú á 21. öldinni eftir öld af nýjum hugmyndum innan lista, og öran vöxt nýrra miðla, þá þykir mér undarlegt að enn taki það samfélagið langan tíma að samþykkja hluti sem list eða viðurkenna gildi og mikilvægi þeirra. Íhaldssemin er ótrúleg.

Á eftir tala ég svo um plötur. Já, já.

1 comment:

  1. Nú spila ég nánast aldrei aðra leiki en Rapid Roll. En fyrir mér er Little Big Planet og nýji Mario gott dæmi um afbragðs samtímalist.

    ReplyDelete